Miðannarfrí!

Nú er önnin hálfnuð og komið að miðannarfríi. Skólinn verður lokaður dagana 19. og 20. október. Við sjáumst hress aftur mánudaginn 23. október. Hafið það gott í fríinu! 🙂

Auglýsingar

Skuggakosningar

Alþingiskosningar verða þann 28. október næstkomandi. Frambjóðendur hjá ýmsum stjórnmálaflokkum mættu í pallborðsumræður inn á sal FVA miðvikudaginn 11. október og fimmtudaginn 12. október voru svo Skuggakosningar í skólanum. Þá fékk unga fólkið tækifæri til þess að æfa sig að kjósa og segja sína skoðun. Hér má sjá myndir frá þessum viðburðum.

This slideshow requires JavaScript.

Heimsókn í Prentmet

20171006_100949_001Nemendur í íslenskuáfanga á starfsbrautinni eru að læra um fjölmiðla. Þeir eru m.a. að búa til  rafrænt fréttabréf og kynna sér mismunandi fjölmiðla. Í íslenskutímanum á föstudögum lesa þeir bæjarblöðin Skessuhorn og Póstinn  til að kynna sér hvaða málefni eru í umræðunni í bæjarfélaginu og hvað sé á döfinni næstu daga.

Prentmet, sem sér um útgáfu Póstsins, bauð okkur að koma og svara næstu spurningu vikunnar. Við fórum því í heimsókn í Prentmet, nemendurnir svöruðu spurningu vikunnar og svo var tekin mynd af hverjum og einum. Að því loknu fór Þórður Elíasson, prentsmiðjustjóri, með okkur í skoðunarferð um prentsmiðjuna og fræddi okkur um allt  mögulegt varðandi prentun. Hér má sjá myndir úr heimsókninni.

September 2017

20170919_092931_0011.jpgNú er september senn á enda og ýmislegt búið að gerast síðan skólinn byrjaði.  FVA átti 40 ára afmæli 12. september og af því tilefni hélt NFFA kaffihúsakvöld og svo var vegleg afmælisveisla opin öllum í skólanum laugardaginn 16. september.

WinterCup, fótboltakeppni FVA, var haldin föstudaginn 22. september en þar stóð Eggert okkar Halldórsson, formaður íþróttaklúbbs, sig vel í að undirbúa og skipuleggja keppnina. Eggert var einnig dómari í keppninni en alls tóku 5 lið þátt í mótinu.

Framundan er svo október en í þeim mánuði verður WestSide haldið, sem er keppni milli FVA, MB og FSN, og svo verður miðannarfrí 19. og 20. október.

Hér má sjá myndir frá skólalífinu á haustönninni.

Kaffihúsakvöld

FVA átti 40 ára afmæli þriðjudaginn 12. september síðastliðinn. Af því tilefni hélt nemendafélagið Kaffihúsakvöld á sal skólans.

Góðgerðafélagið Eynir (GEY-klúbburinn) seldi ís frá ísbúðinni Valdís og rann allur ágóði til UNICEF. Klúbbar NFFA sáu um að skemmta áhorfendum með söngatriði og Gettu Betur keppni milli nemenda og kennara. Síðasta atriðið var svo frumsýning á Nýnemavikumyndbandi.

Það voru um 100 manns sem mættu á svæðið og áttu saman kósý og skemmtilega kvöldstund 🙂 Hér má sjá myndir frá kaffihúsakvöldinu.

 

Nýnemavikan á haustönn 2017

Í þessari viku hefur verið svokölluð „Nýnemavika“ í skólanum en þá er ýmislegt gert til þess að taka vel á móti nýjum nemendum. Á mánudaginn var t.d. nammileikur inni á sal, á þriðjudaginn bauð NFFA upp á grillaðar pylsur í Skógræktinni og á miðvikudaginn var hægt að fara í bíó fyrir  500 kr. á myndina „Hitman´s Bodyguard“. Á fimmtudaginn var svo Nýnemadagurinn. Þá var farið í Fannahlíð, farið þar í ýmsa leiki, grillaðar pylsur og svo var kosið um fulltrúa nýnema í stjórn nemendafélagsins.

Þegar heim var komið var frjálst val um að taka þátt í Langasandssprellinu. Þeir sem vildu taka þátt í því fóru í halarófu niður á Langasand og þurftu m.a. að fara í gegnum þrautabraut, vaða í sjónum og velta sér í sandinum.

Um kvöldið var svo fyrsta ball skólaársins; Nýnemaballið.

Hér má sjá myndir frá Nýnemadeginum: Nýnemadagurinn.

Skólaárið 2017 – 2018

Nú er að hefjast nýtt skólaár. Upphaf haustannar 2017 er á morgun, fimmtudaginn 17. ágúst. Þá er skólasetning og móttaka fyrir nýnema kl. 10:00 inn á sal skólans. Að skólasetningu lokinni verður sérstök dagskrá fyrir nýnema sem lýkur um klukkan 14:00. Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá föstudaginn 18. ágúst.

Eldri nemendur fá aðgang að stundatöflum sínum í INNU fimmtudaginn 17. ágúst kl. 10:00.

Vinsamlegast athugið þá nýbreytni að nú hefst kennsla alltaf kl. 9:40 á föstudögum.

Á haustönn 2017 er 21 nemandi skráður á starfsbraut FVA. Við bjóðum nýja nemendur hjartanlega velkomna í skólann og hlökkum til að hitta eldri nemendur okkar aftur! J

Dimmisjón vorönn 2017

Það er dimmisjóndagur í dag! 🙂

Dagurinn byrjaði á því að útskriftarnemendur mættu í skólann klæddir í gula og appelsínugula Pokemon-búninga og buðu starfsmönnum skólans í morgunverð. Kl. 9:30 mættu svo nemendur og starfsmenn inn á sal þar sem útskriftarnemendur sýndu stórskemmtilegt myndband og sungu kveðjulagið sitt.

Aldís, Ívar og Óli eru að kveðja okkur núna eftir fjögurra ára samveru. Þau gáfu sér þó tíma til að kíkja inn í tíma til okkar og „trufla“ kennslu áður en þau héldu áfram að skemmta sér með útskriftarhópnum. Hópurinn fer svo með rútu til Reykjavíkur þar sem þau fara í keilu og gera ýmislegt skemmtilegt. Í kvöld er svo lokaball skólaársins. Allir útskriftarnemendur sem mæta í búningi fá frítt inn á ballið! 🙂

Hér má sjá fleiri myndir frá Dimmisjón.

2. sæti í Hæfileikakeppni Starfsbrauta 2017

20170323_214202Nemendur á starfsbrautinni tóku þátt í Hæfileikakeppni starfsbrauta sem haldin var í Flensborgarskóla í Hafnarfirði fimmtudaginn 23. mars. Framlag þeirra í keppninni var stutt myndband sem innihélt nokkra leikna brandara eða „sketsa“.

Áður en haldið var til Hafnarfjarðar þá fóru nemendur og starfsfólk brautarinnar fyrst út að borða á Galito. Síðan var brunað til Hafnarfjarðar þar sem keppnin var haldin.

Dómarar í keppninni voru þau Sigurður Sigurjónsson leikari, Björk Jakobsdóttir leikkona og leikstjóri og Steinunn Þorvaldsdóttir dagskrárgerðarkona. Að þessu sinni tóku 12 framhaldsskólar þátt í keppninni en tveir aðrir skólar komu sem gestir.

Aron Brink tónlistarmaður kom sem óvæntur gestur. Hann söng lagið sitt „Þú hefur dáleitt mig“ og kom salnum heldur betur í stuð.

Þegar dómararnir voru búnir að gera upp hug sinn kom í ljós að FB lenti í 1. sæti, FVA í 2. sæti og ME í 3. sæti. Aldeilis frábær frammistaða hjá okkar fólki! 🙂

Að keppni lokinni var diskó og dansað fram eftir kvöldi. Hér má sjá myndir frá keppninni.