Skammhlaup 2018 – myndbönd eftir nemendur

Í áfanganum HAND1HV05 geta nemendur valið um að vera í handavinnu eða í stuttmyndagerð. Fyrsta verkefni nemendanna í stuttmyndagerð var að læra á iMovie. Þeir gerðu kynningarmyndbönd um Skammhlaupið sem var í FVA á haustönn 2018. Hér má sjá afraksturinn: Skammhlaup 2018 (myndband e. Davíð Sigurðsson) og Skammhlaup haustönn 2018 (myndband e. Mark F. Gíslason)..

Auglýsingar

Vorönn 2019

Vorönn 2019 hófst mánudaginn 7. janúar. Nemendur mættu þá skv. stundatöflu í skólann, hressir og kátir eftir gott jólafrí. Á þessari önn fara nemendur í ýmsa áhugaverða áfanga, eins og t.d. Goðafræði, handavinnu, stuttmyndagerð, smíði, tónmennt og lýðheilsuáfanga sem fjallar um heilbrigt líferni.

Kynningarfundur fyrir foreldra/forráðamenn nýnema

Þriðjudaginn 11. september verður haldinn kynningarfundur fyrir foreldra/forráðamenn nýnema. Dagskrá fundar: skólastarf, félagslíf og foreldrasamstarf. Fundurinn verður haldinn á sal skólans klukkan 18:00. Að fundi loknum gefst foreldrum/forráðamönnum kostur á að ræða við skólastjórnendur og náms- og starfsráðgjafa og hitta umsjónarkennara barna sinna (tekið af heimasíðu FVA).

Upphaf haustannar 2018

Skólasetning verður föstudaginn 17. ágúst kl. 10:00. Nýnemar sem luku grunnskóla nú í vor eiga að mæta á skólasetninguna. Aðrir nemendur eru einnig velkomnir sem og foreldrar og forráðamenn. Að skólasetningu lokinni munu nýnemar fá afhenta stundatöflu annarinnar og önnur gögn um skólann.

Eldri nemendur geta skoðað stundatöflur sínar í Innu en opnað verður fyrir þær föstudaginn 17. ágúst kl. 10:00.

Athugið að strax að lokinni skólasetningu hefst sérstök dagskrá fyrir nýnema sem luku tíunda bekk í vor. Dagskránni lýkur um klukkan 14.

Kennsla hefst samkvæmt stundatöflu mánudaginn 20. ágúst. Hlökkum til að sjá ykkur! 🙂

akrafjall

Útskrift vorönn 2018

IMG_0864Í dag var brautskráning frá FVA. Hjördís Brynjarsdóttir hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema og Hallbera Guðný Gísladóttir fyrrum nemandi FVA og landsliðskona í knattspyrnu ávarpaði útskriftarnema og gaf þeim góð ráð. Hér má sjá myndir frá deginum.

Fjórir nemendur brautskráðust af starfsbrautinni, þau Eggert, Jóhanna Nína, Svanberg og Tanja Sif. Eggert fékk viðurkenningu fyrir störf sín að félags- og menningarmálum en hann var formaður íþróttaklúbbs NFFA í vetur. Við óskum þeim innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim velfarnaðar í öllu því sem þau taka sér fyrir hendur í framtíðinni!

Skólaárið 2017-2018 er nú formlega búið. Við hittumst næst í haust en skólinn hefst aftur 17. ágúst. Hafið það gott í sumar! 🙂

Námsmatsdagar í maí 2018

Dagana 4. – 18. maí verða námsmatsdagar hjá okkur í FVA. Þetta er í annað sinn sem við ljúkum önninni með námsmatsdögum. Þessa daga breytist stundatafla nemenda og kennara verulega.

Dagana 4. – 9. maí verða kenndir tveir áfangar á dag, fyrri tíminn verður frá 9:00 – 12:00 og seinni frá 13:00 – 16:00.

Fimmtudaginn 10. maí er uppstigningadagur og skólinn lokaður.

Dagana 11. – 18. maí verða svo áfram kenndir tveir áfangar á dag, annar fyrir hádegi og hinn eftir. Kennslufyrirkomulagið er mismunandi milli áfanga og er alfarið í höndum kennara.

Dimmisjón vorönn 2018

Í dag héldu útskriftarnemar Dimmisjón. Nemendur mættu í löggu- og fangabúningum í skólann og buðu starfsfólki upp á dýrindis morgunmat inn á sal skólans. Að því loknu fóru þau um skólann, kíktu inn í tíma og trufluðu kennslu 🙂 Að lokum söfnuðust allir saman inn á sal skólans þar sem dimmisjónhópurinn lagði m.a. Kahoot!-þrautir fyrir nemendur og starfsfólk.

Útskriftarhópur starfsbrautarinnar, þau Eggert, Jóhanna og Tanja, fóru svo í gönguferð niður í bæ, ásamt fleirum af starfsbrautinni. Þar léku þau á alls oddi, fóru í ýmsa leiki og enduðu svo á Lesbókinni. Hér má sjá myndir frá deginum.

Í kvöld er svo lokaballið á Gamla Kaupfélaginu. Húsið opnar kl. 22:00 og lokar kl. 22:30. Ballinu lýkur kl. 01:00.

Góða skemmtun! 🙂

Hæfileikakeppni starfsbrauta

Hæfileikakeppni starfsbrauta var haldin á Egilsstöðum fimmtudaginn 12. apríl. Framlag okkar á starfsbrautinni var hópurinn „Mið-Akranes“ sem var með uppistand. Í hópnum voru fjórir nemendur; Bryndís, Brynjar, Eggert og Jóhanna.

Krakkarnir stóðu sig að sjálfsögðu frábærlega en komust því miður ekki í verðlaunasæti. Atriðið þeirra var engu að síður það vel heppnað að þau voru beðin um að sýna það á árshátíð starfsmanna FVA laugardaginn 14. apríl við frábærar undirtektir 🙂

Fleiri myndir hér.